Betri borg fyrir börn

Sýningin Betri borg fyrir börn var sýnd á Hönnunarmars 2022 og 2023. Sýninguna vann ég með Auði Ösp Guðmundsdóttur, sviðsmynda- & búningahönnuði.

Sýningin leyfir gestum að skoða, snerta á og hreyfa við ferlum Reykjavíkurborgar en sýningin er til þess gerð að sjá rannsóknarferlið bakvið verkefnið.

Hér er verið að umbreyta ferlinu þegar grunur vaknar um að barn þurfi frekari aðstoð eða greiningu á vanda. Eins og margir vita er þetta ferli flókið og þungt í vöfum og hefur fram að þessu verið að mestu leyti unnið á pappír en nú stendur yfir umbreyting á þessu ferli. Sýningin varpar ljósi á alla þá vinnu sem liggur að baki og þá hönnunarhugsun sem Reykjavíkurborg beitir við þjónustuumbreytingu.

Á sýningunni er 6 metra löng kúlubraut sem sýnir ferilinn eins og hann var, en ferlið var tilviljanakennt og mismunandi eftir skólum. Gestir geta sent eitt kúlu-skólabarn niður brautina og séð hvaða verður á vegi þess barns. Við enda brautarinnar er handknúin snúningsskífa sem táknar biðtíma eftir afgreiðslu málsins hjá miðstöð en sá biðtími getur tekið 1-2 ár.

Áttatíu litrík sippubönd hanga úr loftinu og tákna viðtölin sem teymið tók við notendur kerfisins. Hver litur táknar við hvern var talað; foreldra, ráðgjafa, sérkennslustjóra, kennara eða aðra. Hvert sippuhaldfang er einstakt, enda hvert viðtal einstakt.

Á einum veggnum hanga litrík perlubönd. Böndin eru búin til af mikilvægustu notendum þjónustunnar, börnunum sjálfum. Haldin var vinnustofa með börnum í 4-5. bekk þar sem þau svöruðu spurningum um eigin tilfinningar, skoðanir og staðreyndir um líf þeirra. Þau þræddu síðan perlur á band til að tákna svörin þeirra. Hver perla hefur því djúpstæða merkingu og hægt að lesa ýmislegt úr verkinu þegar öll bönd barnanna eru samankomin.

Í miðju rýmisins eru kubbar, ne þeir tákna allar þær mögulegu lausnir og þá hluta sem verkefnið skiptis í. Þá þarf að forgangsraða og velja hvaða kubbar eru mikilvægastir, undirstöðurnar, hvað þarf að byggja fyrst svo hitt geti komið ofan á?

Meira um verkefnið hér.

Myndir: Embla Vigfúsdóttir & Kristín Guðmundsdóttir
Sýningin stóð á Hönnunarmars, 4. - 8. maí, 2022.